*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Erlent 25. janúar 2015 16:17

Segir efnahagsástandið grafa undan grunnstoðum ESB

Á fimmtudag var tilkynnt um aðgerðir Seðlabanka Evrópu en þær eiga að örva efnahagslífið á svæðinu.

Ritstjórn
epa

Háttsettur embættismaður hjá evrópska seðlabankanum varar við að atvinnuleysi og lítill hagvöxtur á evrusvæðinu sé að grafa undan grunnstoðum Evrópusambandsins. Fjallað er um málið á vef BBC.

Benoit Coeure, sem á sæti í framkvæmdastjórn evrópska seðlabankans, hélt í gær erindi á Alþjóðaefnahagsþinginu (World Evonomic Forum) í Davos í Sviss. Þar sagði hann að seðlabankinn gæti ekki einn síns liðs stuðlað að langvarandi hagvexti á evrusvæðinu, heldur væri það hlutverk stjórnvalda. Hann hvatti stjórnvöld evruríkjanna til að reyna að örva efnahagslífið.

Á fimmtudaginn var tilkynnt um magnaðgerðir Seðlabanka Evrópu en þær eru hugsaðar til að örva efnahagslífið á svæðinu. Seðlabankinn mun verja 60 milljörðum evra í skuldabréfakaup mánaðarlega þar til í septembermánuði á næsta ári. Aðgerðirnar hefjast í marsmánuði og mun endanleg fjárhæð kaupanna því nema 1.200 milljörðum evra.

Ástandið má ekki vara mikið lengur

Coure sagði að með aðgerðunum væri evrópski seðlabankinn að gera það sem í þeirra valdi stendur en bankinn hefði ekki tök á að stuðla að langvarandi hagvexti einn síns liðs. Stjórnvöld ríkjanna þyrftu líka að leggja lóð á vogarskálarnar. „Við getum gert fjárfestingar ódýrari, en fólk þarf að vilja fjárfesta og það er hlutverk fjármálaráðherra og ríkisstjórna,“ sagði Coure á efnahagsþinginu.

Hann sagði jafnframt að vegna lítils hagvaxtar og langavarandi atvinnuleysis séu grunnstoðir hins pólitíska samstarfs í Evrópu að veikjast. Þetta ástand megi ekki vara mikið lengur, því þá sé samstarfið hreinlega í hættu. Á fundi Eurogroup á mánudaginn hyggst Coure greina fjármálaráðherrum aðildarríkjanna frá áhyggjum sínum.