Með ákvörðun Evrópusambandsins í IPA-styrkjamálinu má líta svo á að þau skilaboð hafi verið send Íslendingum að aðildarviðræðum stjórnvalda við ESB sé lokið. Þetta fullyrti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þegar Róbert Marshall, þingmaður Bjartar framtíðar, spurði hann út í framhald aðildarviðræðna að hléi loknu og hvort boðuð verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að ESB eftir að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands kynnir skýrslu sína um stöðu viðræðna og ESB.

Í ágúst greindi ríkisstjórnin frá því að hlé hafi verið gert á aðildarviðræðum og voru samninganefndir leystar frá störfum.

Róbert sakaði Sigmund og aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar um hringlandahátt og óskýr svör um stöðu aðildarviðræðna. „Gera verður þá kröfu að ráðherrar tali af meiri skýrleika en ef þeir væru staddir á hárgreiðslustofu á Sauðárkróki. Síítrekað kemur fram að ESB sé að slíta viðræðum. En það er af og frá.“

Sigmundur sagði ekkert einsdæmi að gera hlé á aðildarviðræðum og nefndi nokkur lönd sem hafi gert slíkt en haldið viðræðum síðan áfram.

En síðan sagði hann:

„Ef ESB heldur sig við þessa stefnu með IPA-styrkina þá er ekki hægt að halda áfram með aðild Íslands. Það hljóta að felast í því skilaboð þegar ESB hverfur frá fyrirheitum. Það er ekki túlkunaratriði. Enn svo ég ítreki: Við hljótum að gera ráð fyrir opinni umræðu þegar skýrsla Hagfræðistofnunar liggur fyrir. Hún mun fara yir þá stöðu sem er komin upp núna. En við munum líka fjalla um þá stöðu sem ESB er í núna.“