„Reksturinn hefur alltaf verið með þeim hætti að við leggjum fram áætlun og höfum fengið samþykki okkar ráðuneytis, sem í þessu tilviki er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, til að reka stofnunina fyrir þær tekjur sem stofnunin hefur innheimt,“ segir Elfa Íshólm Ólafsdóttir, sviðsstjóri hjá Einkaleyfastofunni.

Heimild hafi fengist til að fara með reksturinn fram úr því sem kveðið er á um í fjárlögum og hafa halla á rekstrinum. Aðspurð segist Elfa ekki hafa vitneskju um það hverjir innan ráðuneytisins hafi veitt umrædda heimild.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir í samtali við Viðskiptablaðið að stofnunum beri að fara eftir ákvæðum fjárlaga og að ráðuneyti megi ekki veita undantekningar á því. „Ráðuneytum er ekki heimilt að gefa stofnunum leyfi til þess að fara fram úr,“ segir Vigdís. „Það er bara með þessa stofnun eins og aðrar, þetta er óheimilt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .