Reglur voru brotnar og vilji hug- og félagsvísindasviðs hunsaður þegar rektor Háskólans á Akureyri ákvað að ráða Sigrúnu Stefánsdóttur, fyrrverandi dagskrárstjóra RÚV í starf forseta hug- og félagsvísindasviðs skólans. Þetta er mat Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar og eins umsækjenda um stöðuna.

Ólína skrifar grein um málið sem birt er í Morgunblaðinu í dag.

Ólína segir að ráða hafi átt í starfið að fenginni umsögn hug- og félagsvísindasviðs og að höfðu samráði við háskólaráð. Þau áform hafi staðist illa og tímaáætlanir ekki. Þá segir Ólína að meinlegar villur hafi verið í hæfnisdómi um sig þar sem bæði menntun og rannsóknavirkni voru vanmetin án þess að það fengist leiðrétt. Hug- og félagsvísindasvið skólans hafði áður mælt með ráðningu Ólínu.

Tilefni skrifanna eru skrif Stefáns B. Sigurðssonar, rektors háskóalsn, í Akureyri-Vikublað um þá ákvörðun að ráða Sigrúnu í stað Ólínu. Ólína segir Sigrúnu hafa verið metna þriðja hæfasta umsækjandann.

Ólína segir málið hafa valdið úlfaþyt norðan heiða og sunnan, enda margt í ráðningaferlinu sem er gagnrýnivert. Til dæmis er það áhyggjuefni fyrir háskólafólk hvernig gengið var gegn vilja fræðasviðsins sem reglum samkvæmt á að hafa úrslitaáhrif að virtum lögmætum sjónarmiðum og hæfnisdómum. Hún segir að þótt hún hafi verið ofan á í vali hug- og félagsvísindasviðs þá hafi rektor ráðið umsækjanda sem fræðasviðið hafði metið þriðja hæfastan og hlaut næstfæstu atkvæðin í kosningu sviðsfundar. Sú kosning hafi farið fram að afstöðnum kynningarfundi þar sem farið var yfir menntun, fyrri störf og framtíðarsýn umsækjenda. Það hafi yfirstjórn ekki látið sér nægja heldur leitað til ráðningastofu Capacent sem var látið hafa lokaorðið.

Um mat Capasent skrifar Ólína.

„Þar erum við Sigrún báðar taldar „skara fram úr“ öðrum umsækjendum, en um mig segir: „Ólína hefur miklar forsendur til þess að sinna þessu starfi. Hún er með góða menntun, hefur reynslu af stjórnun, og þekkir til háskólasamfélagsins. Hún hefur tekið þátt í uppbyggingu, m.a. innan háskóla, þó sú reynsla sé ekki endilega reynsla stjórnandans. Ólína sér marga möguleika fyrir Háskólann á Akureyri, og hefur áhuga og vilja til að vera í liðsheild sem eflir og styrkir skólann. Ólína er mjög vel máli farin samkvæmt því sem heyra mátti í viðtalinu. Þá eru gögn hennar vel upp sett og textinn skýr …“ Matskenndar umsagnir eru auðvitað opnar fyrir túlkun en ég tel óhætt að fullyrða að enginn umsækjenda hafi fengið „betri“ umsögn en þessa hjá Capacent. Hins vegar gaf Capacent umsækjendum einkunn fyrir frammistöðu í viðtali. Þar skildi 1 stig af 12 milli mín og Sigrúnar. Þetta eina matskennda stig lætur rektor vega þyngra en hina lögbundnu hæfnisþætti og vilja fræðasviðsins sem hefur tekið lögmæta afstöðu að virtum öllum fyrirliggjandi gögnum um umsækjendur.“