„Þetta er rökleysa, að einhverjir annarmarkar hafi átt þátt í ákvörðun ríkisskattstjóra. Það stemmir ekki, segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. Hún er ósátt við þær ásakanir Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra að annmarkar hafi verið á framhaldsrannsókn skattrannsóknarstjóra þegar ákveðið var að endurákvarða ekki 13 milljarða króna skatt á Stoðir (áður FL Group).

Málið snýst um það hvort FL Group hafi verið heimilt að fresta 50 milljarða króna hagnaði sem varð til vegna hlutabréfasölu árið 2006. Frestunin gerði það að verkum að hagnaður FL Group var nær enginn það ár og því enginn skattur greiddur.

Gerði víst skýrslu

Skúli Eggert skrifaði um málið í Morgunblaðinu í dag og sagði þar rannsókn skattrannsóknarstjóra hafa verið óvenjulega og send með bréfi og nokkrum fylgiskjölum en ekki í skýrsluformi eins og áskilið sé í reglugerð. Þá hafi Stoðum ekki verið gefið færi á því að tjá sig um niðurstöður framhaldsrannsóknarinnar í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga og reglugerðarinnar.

Bryndís vísar þessum ásökunum Skúla Eggerts á bug.

„Auðvitað var gerð skýrsla í þessu máli eins og öllum og hún send viðkomandi til andmæla. Síðan var farið fram á það af hálfu ríkisskattstjóra eftir að málið kom þangað að nánari greining yrði gerð á þessum umrædda lið í bókhaldi félagsins. Það töldust ekki neinar ástæður til að senda það aftur í andmæli enda voru engar efnislegar breytingar á skýrslunni,“ segir Bryndís. Hún bendir á að málið hafi verið eftir þetta verið tekið til efnislegrar meðferðar hjá ríkisskattstjóra því megi draga þá ályktun að ekki hafi verið miklir annmarkar á rannsókninni.

„En ef niðurstaðan var sú að rétt væri að endurákvarða skatta og ríkisskattstjóri teldi þetta skipta máli þá hefði hann getað unnið úr því, hann hefði getað sent málið aftur til skattrannsóknarstjóra eða sjálfur sent gögnin í andmæli. Hann ákvað hins vegar að endurákvarða ekki skatta á Stoðir,“ segir Bryndís og bætir við að rangt sé að blanda ímynduðum annmörkum skattrannsóknarstjóra inn í ákvörðunina.

„Ef ríkisskattstjóri hefði talið forsendur til að endurákvarða skatta út frá efnisákvæðinu þá fyrst hefði reynt á einhverjar slíkar vangaveltur. Það er bara mat ríkisskattstjóra að þetta sé heimilt,“ segir hún.