„Ég hef aðallega óendanlega mikinn áhuga á skattkerfinu,” segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrir hálfum mánuði birti fjármála- og efnahagsráðherra tölur um heildartekjur ríkissjóðs af skattstofnum sundurgreindar eftir sveitarfélögum. Gögnin voru svar við fyrirspurn Óla Bjrns frá í október í fyrra en hann sóttist eftir sundurgreiningu á tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga og lögaðila, tryggingagjaldi, eignarsköttum og veiðigjöldum eftir sveitarfélögum og hverjar meðaltekjur væru af hverjum íbúa sveitarfélaganna.

Á meðal þess sem fram kemur í upplýsingunum er að hæstar meðaltekjur ríkissjóðs í fyrra af hverjum íbúa í Hvalfjarðarsveit námu um 3,2 milljónum króna. Mestu tekjurnar á haus af tekjuskatti einstaklinga voru í Vestmannaeyjum.

Spurður um það hvað hafi legið að baki fyrirspurninni um dreifingu skatttekna ríkissjóðs eftir sveitarfélögum segir Óli Björn. „Þetta er náttúrulega leið til að sjá hvar verðmætin enda og mikilvægt að skoða sérstaklega núna þegar verið er að tala um að flytja hina og þessa þjónustu frá ríkinu til sveitarfélaga. Það er ljóst að sveitarfélögin eru misjafnlega í stakk búin til að takast á við slíkar breytingar,” segir Óli Björn. „Það sem þessi gögn sýna hins vegar ekki er síðan til hvaða sveitarfélaga, og hvernig, þessum fjármunum er endurúthlutað.” Aðspurður hvers vegna fyrirspurnin tók ekki til gagna um tekjur af virðisaukaskatti, sem eru um 40% af skatttekjum ríkissjóðs, segir Óli Björn að þeim tekjum sé erfiðara að raða niður á landsvæði. „Virðisaukaskatturinn er sérkafli út af fyrir sig. Reykjavík er auðvitað aðalverslunar- og þjónustusvæðið,” segir Óli Björn. „Það mætti líka benda á að tekjustofninn vegna veiðileyfagjaldsins, eftir sveitarfélögum, er ekki alveg hreinn heldur. Til að mynda hefur verið bent á að Dalvík er mjög lág í þessum gögnum þrátt fyrir mikil umsvif Samherja á þessu svæði. En gjaldið leggst á Akureyri í gögnunum því höfuðstöðvarnar eru þar,” segir hann.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .