Í skriflegri greinargerð Seðlabanka Íslands um söluferli tryggingarfélagsins Sjóvár kemur fram að það tilboð sem á endanum var tekið var metið hagstæðara en tvö tilboð sem áður stóð til að samþykkja. Nýti núverandi eigendur Sjóvár kauprétt að um 20,6% hlut sem Eignasafn Seðlabanka Íslands heldur enn á jafngildir meðalverð fyrir hlutina að heildarvirði Sjóvár sé ríflega 10 milljarðar króna.

Í greinargerð Seðlabankans segir orðrétt:

Að loknum öðrum fasa voru viðræður teknar upp við einn aðila, hæstbjóðanda í lok þess fasa og enduðu þær viðræður í lok árs 2010 þegar sá hópur dró sig formlega út úr ferlinu. Um leið og þeim viðræðum lauk var tilkynnt um það í fjölmiðlum og jafnframt þegar nýr kaupsamningur lá fyrir. Þannig voru veittar upplýsingar á öllum stigum um framvindu ferlisins og var enginn þáttur undanskilinn í þeim efnum.

Upplýsir ekki um „atvikið"

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður stjórnar ESÍ hefur ekki viljað upplýsa af hverju bankinn vildi kanna „atvik" sem varð þess eðlis að „ekki var hægt að ganga formlega frá sölunni" á Sjóvá til fjárfestahóp sem leiddur var að Heiðari Má Guðjónssyni fjárfesti. Þá segir Már að hópurinn hafi sagt sig frá söluferlinu. Í hópnum var félag í eigu Stefnis sjóða sem að endingu keypti Sjóvá ásamt fleiri fjárfestum. Í greinargerð Seðlabankans segir:

Hluti hópsins hélt áfram og kom með tvö tilboð. Annað tilboðið var jafnhátt því tilboði sem tekið hafði verið en sem dregið var til baka, samanber það sem áður kom fram. Hitt tilboðið í þessari annarri umferð fól í sér að stærri hluti fyrirtækisins yrði seldur strax. Það tilboð var metið hagstæðara en hin tvö jafngildu tilboð.

Eiga kauprétt að rúmum 20%

Kaupverð fyrir 52,4% hlut ESÍ í Sjóvá er um 4,9 milljarðar króna. Nýti kaupandi sér kauprétt að um 20,63% hlut sem eftir er í eigu ESÍ er kaupverðið ríflega 2,4 milljarðar króna. Meðalverð sem ESÍ fengi fyrir 73,03% hlut sinn í Sjóvá ef kauprétturinn verður nýttur jafngildir því að heildarvirði Sjóvár sé ríflega 10 milljarðar kr. ef ekki er tekið tillit til núvirðingar.