Evrópsk samkeppnisyfirvöld hafa sent frá sér bráðabirgðaskýrslu um samkeppni á lyfjamarkaði í Evrópu eftir húsrannsókn hjá helstu fyrirtækjum í greininni fyrr á þessu ári.

Engar vísbendingar eru um að samkeppnislög hafi verið brotin af evrópskum lyfjafyrirtækjum. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem nýverið var gefin út í kjölfar húsleitar og rannsóknar á samkeppnisumhverfi evrópskra lyfjafyrirtækja fyrr á þessu ári.

Greint er frá þessu í fréttatilkynningu  frá  Frumtökum - samtökum framleiðenda frumlyfja.

Enn fremur kom fram að ekkert benti til þess að evrópsk lyfjafyrirtæki væru ekki í mikilli samkeppni.

Þá kemur fram að í niðurstöðu sinni viðurkennir framkvæmdastjórn ESB að lyfjaiðnaðurinn sé Evrópubúum lífsnauðsynlegur og að einkaleyfi séu nauðsynleg umbun fyrir nýjungar og hvetji til frekari rannsókna. EFPIA, samtök lyfjaframleiðenda í Evrópu og málsvari evrópska lyfjaiðnaðarins, kalla eftir meiri samkeppni á samheitalyfjamarkaði en slíkt myndi spara verulegar upphæðir sem síðan mætti nýta til að frumlyf bærust fyrr til fleiri sjúklinga.