Seðlabanki Íslands taldi að ráða mætti af viðræðum við forsvarsmenn Landsbankans sl. vor að þegar væri hafið ferli við að færa innlánastarfsemi Landsbankans í dótturfélag í Lundúnum. Í júlí hafi svo komið á daginn að svo hafi ekki verið.

Þetta kemur fram í ræðu sem Ingimundur Friðriksson Seðlabankastjóri átti að flytja í Finnlandi en gerði ekki og birt var á vef bankans í gær.

Í ræðunni segir að bankastjórn Seðlabankans hafi greint forsvarsmönnum íslensku bankanna frá vaxandi neikvæðum viðhorfum stjórnvalda annarra landa til innlánssöfnunar þeirra. Sumir hafi beinlínis sagt að komið yrði í veg fyrir að íslensku bankarnir fengju að taka á móti innlánum eða fengju að auka við innlán þar sem innlánasöfnun hafi þegar verið hafin.

Dæmi hafi verið um kröfur um að bankarnir beinlínis minnkuðu innlán. Því hafi virst sem áform bankanna um að mæta allri fjármögnunarþörf sinni með söfnun innlána á komandi misserum yrðu í besta falli torsótt.

Í ræðunni segir svo orðrétt:

„Seðlabanki Íslands taldi eindregið að innlánastarfsemi bankanna ætti að vera í dótturfyrirtækjum fremur en útibúum, þ.m.t. að innlánastarfsemi Landsbankans í Lundúnum yrði færð í dótturfyrirtæki bankans. Unnið var að undirbúningi þessa í Landsbankanum snemma árs 2008 og var Seðlabankanum greint frá því hvað til þyrfti og hve langan tíma það tæki. Af viðræðum við forsvarsmenn Landsbankans taldi Seðlabankinn mega ráða að það ferli væri þegar hafið sl. vor.

Í júlí kom á daginn að svo var ekki. Þótt afstaða Seðlabankans væri skýr, hafði hann ekki vald til þess að knýja fram breytingar eða gera kröfur og raunar var svigrúm annarra íslenskra stjórnvalda mjög takmarkað innan gildandi laga sem falla að laga- og regluverki Evrópusambandsins.“