Það liggur nú fyrir að Seðlabankinn var of seinn að nýta sér gjaldeyrishöftin til þess að lækka vexti og vega þannig á móti gríðarlegum samdrætti í landsframleiðslu. Vaxtastig hefði átt að vera komið á þann stað þar sem það er nú fyrir ári síðan til þess að gefa peningalegum slaka færi á að vinna á móti kreppunni.

Þetta segir í stýrirvaxtaspá greiningardeildar Arion banka en spáð er 0,75 punkta lækkun á næsta stýrivaxtafundi. Segir að eins og nús é komið fyrir málum á Íslandi þá skipti það ekki höfuðmáli hvort verðbólga sé einu prósentustigi meiri eða minni, „en eitt auka prósentustig í hagvexti er eins og vatn í eyðimörk. Þessi glöp hljóta nú að vera meðlimum Peningastefnunefndarinnar ljós enda liggur nú fyrir að nokkuð er til þess að forsendur geti skapast fyrir afnámi hafta.

Einnig ber að veita því eftirtekt að aðhaldsstig vaxta Seðlabankans hefur farið hækkandi á fleiri mælikvarða sem sést m.a. af því að millibankavextir hafa ekki lækkað í takt við vaxtalækkanir Seðlabankans. Í raun má segja að hinir „raunverulegu“ virku vextir Seðlabankans í dag séu nær veðlánavöxtum (sem eru 5,5%) en ekki meðaltal innlánsvaxta og 28 daga innistæðubréfa líkt og verið hefur síðustu mánuði (meðaltal í dag 4,7%).“

Gera ráð fyrir að vaxtalækkunarferlið haldi áfram á næsta ári

Í stýrivaxtaspánni segir að fátt sé í spilunum sem rökstyðji minni skref en tekin voru á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar. Þá voru allir nefndarmenn sammála um 75 punkta vaxtalækkun. „Gangi spá okkar eftir verða vextir á viðskiptareikningum innlánastofnana 3,25%, hámarksvextir 28 daga innistæðubréfa 4,5% og veðlánavextir 4,75%. Greiningardeild gerir jafnframt ráð fyrir því að vaxtalækkunarferlið haldi áfram á nýju ári en með hægari hraða.“