Sitthvað er gæfa og gjörvileiki eins og sjá má á sögu Jennifer Sultan. Fyrir þrettán árum seldi hún, ásamt kærasta sínum, netfyrirtækið Live OnLine fyrir einar 70 milljónir dala, andvirði um 8,7 milljarða króna) og framtíðin var björt. Live OnLine var eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem bauð upp á streymt sjónvarp í beinni útsendingu yfir netið og var þjónustan m.a. notuð til að sýna beint frá tískusýningum og tónleikum.

Eftir söluna keypti hún risíbúð við Union Square í New York og leigði sumarhús í hinu eftirsótta Hamptons svæði. Hinn nýfengni auður reyndist Sultan hins vegar erfiður biti og var hún fljót að eyða þessari annars háu fjárhæð, þótt hafa beri í huga að söluandvirðið rann að sjálfsögðu ekki óskipt til hennar. Hún reyndi nokkrum sinnum að stofna aftur ný tæknifyrirtæki en tókst illa til. Hún tók svo að stunda nýaldarlækningar og endaði loks á því að ánetjast lyfseðilsskyldum verkjalyfjum.

Fyrir nokkrum árum varð hún gjaldþrota og á föstudaginn var hún dæmd í fjögurra ára fangelsi fyrir að selja lyfseðilsskyld lyf og fyrir að reyna að selja skotvopn. Líta má svo á að hún hafi sloppið fyrir horn því upphaflega var hún dæmd í 20 ára fangelsi fyrir þessi brot.