Hlutafé Verne Real Estate, dótturfélags alþjóðlega gagnaversins Verne Holding í Reykjanesbæ, var aukið um 535 milljónir króna í janúar. Félagið heldur utan um byggingar og tæknibúnað gagnaversins. Þetta er önnur hlutafjáraukning félagsins en það var aukið um 730 milljónir króna í fyrrasumar.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að hlutafjáraukningin sé erlend fjárfesting sem hafi komið í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, samkvæmt tilkynningu til Fyrirtækjaskrár. Það þýði að um 20% afsláttur hefur fengist á krónukaupnum gegn því að fjárfesta hér á landi til lengri tíma í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri.

Fyrirtækið var stofnað árið 2007 af Novator, fjárfestingarfélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, og sjóði á vegum bandaríska fjárfestingarfélagsins General Catalyst Partner sem er sérhæft í nýsköpun

Blaðið segir að samkvæmt upplýsingum frá Credit info á Novator 25% í félaginu en aðrir hluthafar eru flokkaðir sem óþekktir.