Reiknistofa Apótekanna og Kaktus Kreatives hafa undirritað samstarfssamning um þróun á Medio vefverslunarkerfi sem ætlunin er að gjörbylti sölu og umsýslu lyfja á Íslandi. Þannig geta smærri lyfjaverslanir í landinu stofnað með auðveldum hætti eigin rafræn útibú og aukið sjálfvirkni.

Undirskrift samningsins fór fram föstudaginn 7. febrúar síðastliðinn, en framkvæmdastjóri Kaktus Kreatives, Birgir Hrafn Birgisson og framkvæmdastjóri Reiknistofu Apótekanna, Örn Viðarsson, skrifuðu undir samstarfssamninginn.

„Í þessu samstarfi varð til heildstætt vefverslunarkerfi fyrir apótek landsins. Kerfið, sem ber heitið Medio, mun spara apótekum gífurlegan tíma með sjálfvirknivæddum ferlum, sérhæfðu stjórnborði og vefverslunarkerfi í fremstu röð. Það er því sérstaklega ánægjulegt að sjá jafn öflugt samstarf verða til,“ segir Birgir Hrafn.

„Medio gefur stórum sem smáum apótekum tækifæri á að stíga stórt skref inn í stafræna framtíð og stofna sitt eigið rafræna útibú með einföldum hætti. Nú þegar hefur Garðsapótek tekið upp Medio með góðum árangri og eru fleiri apótek á leiðinni.”

Einföldun á flóknum ferlum

Medio nýtir sér þjónustu Reiknistofu Apótekanna sem hjúpar tengingar við lyfseðlagátt landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands og lyfjagreiðslunefndar. Reiknistofa Apótekanna býður upp á sérsniðnar afsláttarreglur fyrir hvert og eitt apótek sem kemur til þegar verð á lyfseðilsskildum lyfjum er reiknað. Þetta á að gefa hverju apóteki fyrir sig ákveðna sérstöðu á markaðinum.

Guðmundur Sigursteinn Jónsson stjórnarformaður Kaktus segir að höfuðáhersla verði lögð á öryggi, bæði gagna og persónuupplýsinga.

„Viðbótartækifærin í þessari lausn felast m.a. í að einfalda flókið samskiptanet apótekanna við t.d. hjúkrunarheimili landsins, veita apótekum tölulega yfirsýn yfir pantanir, myndræna framsetningu af stöðu reksturs hjá viðeigandi apóteki og svo að auki umhverfissjónarmið, t.d. minni pappírsnotkun,” segir Guðmundur Sigursteinn.

Kaktus er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar sérhæfð vefkerfi fyrir íslenskan markað. „Það er okkur sönn ánægja að vinna með Kaktus sem hafa gífurlega reynslu í smíðum á vefkerfum og eru þeir með sérstöðu í sjálfvirknivæddum vefverslunum,“ segir Örn í Reiknistofu Apótekanna.