Sex nýir starfsmenn Matvælastofnunar munu hér eftir sinna búfjáreftirliti sem áður var unnið af tæplega 40 búfjáreftirlitsmönnum, sem unnu við það í hlutastarfi og svarar til 10-12 stöðugildum í fullu starfi. Verkefni búfjáreftirlitsmanna fluttust til Matvælastofnunar um áramót, samkvæmt nýjum lögum um búfjárhald.

Eftir breytinguna verður ekki farið í eftirlit á hvern bæ eins og tíðkast hefur og mun Matvælastofnun beina eftirlitinu þangað sem mest er þörfin, með tilliti til velferðar dýra og matvælaöryggis. Þetta er svokallað áhættumiðað eftirlit. Á árinu mun stofnunin vinna að áhættuflokkun í alifugla-, svína, nautgripa-, sauðfjár-, hrossa og loðdýrahaldi og byggja eftirlitið frá árinu 2015 á þeirri flokkun.

Í tilkynningu á vef Matvælastofnunar segir að á þessu ári verði að beita annarri nálgun til að ákveða hvar mesta þörfin er á eftirliti. Tekið verði mið af þekktri sögu búskapar á viðkomandi bæ, svo sem niðurstöðum skoðunar búfjáreftirlitsmanna, niðurstöðum úr heilbrigðisskoðunum í sláturhúsum, fyrri afskiptum stofnunarinnar o.s.frv. Auk þess mun stofnunin afla upplýsinga hjá þeim sem starfa sinna vegna hafa skyldur til að tilkynna um illa meðferð á dýrum.

Árétting: Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun jafngilda 40 búfjáreftirlitsmenn 10-12 stöðugildum. Það kom ekki fram í upphaflegri gerð fréttarinnar á vef Matvælastofnunar.