Seðlabanki Íslands mun hefja fyrirhuguð kaup ríkisskuldabréfa á eftirmarkaði í byrjun næsta mánaðar, sem munu nema allt að 20 milljörðum á öðrum ársfjórðungi. Fjárhæð, tíðni og framkvæmd kaupanna verður sveigjanleg og umfangið „í samræmi við eðlilega virkni markaðarins“. Þetta kemur fram á vef bankans .

Aðeins verður um óverðtryggð bréf að ræða, en allir flokkar, bæði útistandandi og þeir sem kunna að bætast við, koma til greina. Tilkynnt verður um hámarksupphæð kaupa fyrir hvern ársfjórðung fyrirfram, en alls getur heildarupphæð aðgerðarinnar numið allt að 150 milljörðum króna.

Lagt verður fram tilboð í Kauphöllinni fyrir hver kaup, en í framhaldinu hugsanlega framkvæmt útboð, sem þá verður tilkynnt um daginn áður.

Markmið kaupanna er að „tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið til að slakara taumhald peningastefnunnar skili sér með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja“. Er þar vísað sérstaklega í áhrif fyrirhugaðrar útgáfu ríkisskuldabréfa á næstunni, sem að öðru óbreyttu myndu hækka langtímavexti.