Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins er ósáttur við hönnun nýbyggingar á Alþingisreitnum sem hýsa á skrifstofur Alþingis. Byggingin sé áhugaverð en passi ekki á Alþingisreitinn.

„Þetta er alveg afleitt að þingið skuli standa fyrir því að flytja Borgartúnið í Kvosina því að þessi bygging ætti heima í Borgartúni eða víða í þessum bæ eða í hvaða borg sem er, kannski í Evrópu eða víðar, en ekki í Kvosinni í Reykjavík,“ sagði Sigmundur í Kryddsíldinni á Stöð 2 í dag.

Sigmundur sagðist fljótlega á nýju ári ætla leggja fram tillögu þar sem ákvörðun um bygginguna verði endurskoðuð.

„Því að skipulagsmálin í Reykjavík eru náttúrulega í tómu tjóni eins og flestir þekkja. En það er ekki hægt að sætta sig við það Alþingi Íslendinga sé að taka þátt í klúðrinu. Við eigum að vera góð fyrirmynd frekar að halda aftur af mistökunum en að ýta undir þau,” sagði Sigmundur.

Í tíð sinni sem forsætisráðherra lagði Sigmundur til að bygging skrifstofuhúsnæðisins yrði byggð á aldargömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar. Arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer hjá Studio Granda unnu hugmyndasamkeppni um bygginguna en niðurstaðan var kynnt í desember 2016 en þau teiknuðu einnig ráðhús Reykjavíkur.

Arkitektinn og formaður Samfylkingarinnar, Logi Már Einarsson, var innilega ósammála Sigmundi og sagði bygginguna teiknaða af einhverjum fremstu arkitektum sem Íslendingar hafi átt.