Þýskir fjölmiðlar gera mikið úr hlutverki Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og segja að samkomulagið sem tekist hafi á miðvikudaginn sé fyrst og fremst henni að þakka. Þetta sé sigur fyrir hana enda hafi henni tekist að ná flestu af því sem hún setti á oddinn fram. Þá hafi það verið taktískur leikur hjá Merkel að færa fundinn frá sunnudegi fram á miðvikudag því á þeim tíma hafi hún náð að tryggja sér stuðning samstarfsflokksins og þar með þýsku ríkisstjórnarinnar.

Vinsældir Merkel og flokks hennar, CDU, hafa fallið jafnt og þétt undanfarna mánaðu í skugga skuldavandræða evruríkjanna og flokkur hennar hefur tapað í nær öllum fylkiskosningum í Þýskalandi það sem af er árinu. Með samkomulaginu nú telja þýskir fjölmiðlar að henni hafi tekist afla sér trausts og það muni síðan skila sér í auknu fylgi flokks hennar.