„Ég held að umræða um þessa skýrslu geti ennþá skýrt og dýpkað og sýnt þá gjá sem er í umræðu um byggðamál annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að fara að horfa til þess að Ísland er eitt; við erum fá og við ætlum að byggja þetta land öllsömul alls staðar hringinn í kringum landið. Einn hluti af því er að dreifa opinberum störfum betur en við höfum gert,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við RÚV .

Norðvesturnefnd hefur sent ríkisstjórninni 26 tillögur um hvernig efla megi fjárfestingar, byggðaþróun og fjölga atvinnutækifærum á Norðurlandi vestra. Er þar meðal annars lagður til flutningur Rarik á Sauðárkrók og skipareksturs Landhelgisgæslunnar í Skagafjörð.

Sigurður Ingi segir í samtali við RÚV að tillögurnar séu góðar og að þær hafi lítillega verið ræddar í ríkisstjórn. Það sé hlutverk stjórnvalda að fara yfir skýrsluna og sjá hvað sé raunhæft og hvað ekki. Hins vegar liggi engin ákvörðun fyrir.