Aðalmeðferð fór fram í byrjun vikunnar í máli Sigurjóns Sighvatssonar kvikmyndagerðarmanns og tengdafjölskyldu hans gegn slitastjórn Glitnis.

Sigurjón og fjölskylda hans krefjast milljarða skaðabóta vegna þess að fjölskyldan telur að starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis hafi veitt sér ófullnægjandi þjónustu þegar fjölskyldan keypti fasteignafélagið VG Investments í Danmörku. Kaupin áttu sér stað árið 2005. Kaupin voru meðal annars gerð með lánveitingum frá Glitni í Lúxemborg. VG Investments tapaði á fjárfestingunum og fór í þrot nokkrum árum síðar.

Slitastjórn Glitnis telur að Glitnir sé ekki skaðabótaskyldur. Sá málatilbúnaður er meðal annars byggður á því að fjölskyldan hafi látið annan óháðan aðila, KPMG í Danmörku, gera áreiðanleikakannanir vegna kaupanna.