Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, segir trúverðugleika Háskóla Íslands vera farinn að nálgast gjaldþrot þegar Gylfi Magnússon dósent tali um að fjármálakerfið sé komið í greiðsluþrot.

Því sé víðs fjarri að þrot blasi við bönkunum þótt lausafjárþröng sé nú. Úr henni verði leyst. Staðan sé erfið en Sigurður er bjartsýnn á að málin leysist.

Þetta kemur fram á vef RÚV.

Á vef RÚV kom fram fyrr í dag að Gylfi Magnússon, dósent við HÍ sagði bankana og fjölda fyrirtækja í raun vera gjaldþrota.

Þá sagði hann blasa við að gripið verði til róttækra aðgerða um helgina sem feli í sér í reynd að bönkunum verði lokað og erlendar eignir þeirra seldar í kjölfarið.

Hann sagði jafnframt eignir íslensku bankanna ekki duga fyrir skuldum þegar tekið er tillit til þess að fjöldi fyrirtækja er gjaldþrota í reynd.