Símafélagið og Netsamskipti hafa komist að samkomulagi um að sameina rekstur félaganna undir merkjum Símafélagsins. Bæði fyrirtækin bjóða upp á símaþjónustu en í fyrra fóru Netsamskipti að bjóða upp á símaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja á kerfum Símafélagsins.

Félögin höfðu áður sameinað útlandagáttir sínar fyrir Internet og þótti  sameiginlegur rekstur því eðlilegt framhald á samstarfinu, að því er segir í tilkynningu.

Fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um Símafélagið í febrúar að fyrirtækið gerði nýverið rammasamning við Ríkiskaup um alþjónustu í fjarskiptum eins og Síminn og Vodafone. Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri Símafélagsins, sagði þá búast við að þau ríkisfyrirtæki sem kaupi þjónustu frá Símafélaginu ættu að geta lækkað kostnað sinn um 20%.