Stjórnir Skipta hf. og Símans hf. hafa ákveðið að rekstur félaganna verði sameinaður undir nafni Símans hf. Orri Hauksson, forstjóri Skipta, verður forstjóri sameinaðs félags. Míla ehf. og Skjárinn ehf. , sem áður voru í eigu Skipta verða nú að fullu í eigu Símans hf.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að við sameininguna náist fram aukin hagkvæmni í rekstrinum, tvíverknaði verði eytt og stjórnendum fækkað. Við skipulagsbreytinguna á að auka enn sjálfstæði Mílu sem rekstraraðila grunnfjarskiptakerfis og tryggja að markmið sáttar sem Skipti hf., Síminn hf. og Míla ehf. gerðu við Samkeppniseftirlitið í mars 2013 nái fram að ganga.

Haft er eftir Orra Haukssyni, forstjóri Símans, að með sameiningu náist fram hagræðing í rekstrinum. Stefnt sé að skráningu hlutabréfa sameinaðs félags í kauphöll á komandi misserum og að hann sé þess fullviss að breytt skipulag starfseminnar henti vel skráðu félagi.

Sævar Freyr Þráinsson, fráfarandi forstjóri Símans, segist í tilkynningunni stoltur af þeim árangri sem hafi náðst í rekstri Símans og þakkar samstarfsfólki fyrir samstarfið.