Skoski auðkýfingurinn Sir Tom Hunter hefur gengið í lið með Baugi um kaup á bresku stórverslunarekeðjunni House of Fraser og reiknað er með að fjárfestahópurinn geri formlegt kauptilboð í félagið í næstu viku, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fjárfestahópurinn, sem leiddur er af Baugi, inniheldur einnig FL Group, Kevin Stanford og Bank of Scotland. Samkvæmt heimildum blaðsins munu Glitnir og Bank of Scotland fjármagna yfirtökuna.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að ekkert óvænt hafi komið fram við áreiðanleikakönnun á félaginu og að vænta megi að formlegt kauptilboð verði samhljóða óformlegu kauptilboði hópsins, sem hljóðar upp á 350 milljónir punda eða 148 pens á hlut, sem samsvarar um 46 milljörðum króna.

Verðbréfafyrirtækið Evolution telur kauptilboðið sanngjarnt og sérfræðingur hjá fyrirtækinu segir að gengi bréfa House of Fraser væri undir 120 pens á hlut ef Baugur hefði ekki sýnt því áhuga.