Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins mun áfram leiða lista framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi en í gær var haldið prófkjör flokksins.

Ellefu gáfu kost á sér en kosið var í fimm sæti. Alls greiddu 1.068 manns atkvæði, 1.020 atkvæði voru gild en 48 atkvæði voru ógild.

Staða fimm efstu frambjóðenda var þessi eftir að öll atkvæði höfðu verið talin:

  • Siv Friðleifsdóttir   - 498 atkvæði í 1. sæti
  • Helga Sigrún Harðardóttir  - 433 atkvæði í 1.-2. sæti
  • Una María Óskarsdóttir  - 494 atkvæði í 1.-3. sæti
  • Bryndís Bjarnarson   - 439 atkvæði í 1.-4. sæti
  • Svala Rún Sigurðardóttir  - 510 atkvæði í 1.-5. sæti

Samkvæmt reglum flokksins um jafnrétti kynjanna skal tryggt að í efstu 3 sætum listans sé að lágmarki 1 af öðru kyninu og að í efstu 5 sætum séu að lágmarki 2 af öðru kyninu.

Eftir að tillit hefur verið tekið til ákvæða í reglum prófkjörsins um jafnrétti kynjanna, þá er lokaniðurstaða þessi:

  • 1. sæti Siv Friðleifsdóttir
  • 2. sæti Helga Sigrún Harðardóttir
  • 3. sæti Gestur Valgarðsson með 332 atkvæði í 1.-3. sæti
  • 4. sæti Una María Óskarsdóttir
  • 5. sæti Styrmir Þorgilsson með 414 atkvæði í 1.-5. sæti