Uppgangur á kínverska hlutabréfamarkaðinum virðist engan endi ætla að taka þrátt fyrir að stutt sé síðan að Sjanghæ hlutabréfavísitalan féll um meira en 9% í lok febrúar og gætti áhrifanna af því hruni á mörkuðum víða um heim. Síðastliðinn miðvikudag fór hlutabréfavísitalan í Sjanghæ kauphöllinni í fyrsta skipti yfir 4000 stig og hefur núna hækkað um meira en 50% það sem af er þessu ári. Þær fréttir sem bárust í síðustu viku um að kínversk stjórnvöld hyggðust láta þarlenda banka fjárfesta í auknum mæli í erlendum verðbréfum hafa gert fátt annað heldur en að ýta enn frekar undir væntingar manna um að ekkert lát sé á frekari hækkunum á hlutabréfamörkuðum í Kína. Hagfræðingar telja ekki ólíklegt að hlutabréfavísitalan muni jafnvel ná 5000 stigum innan mánaðar.

Enda þótt flestir sérfræðingar séu á einu máli um að kínverski hlutabréfamarkaðurinn sé talsvert ofmetinn um þessar mundir, þá virðast spákaupmenn hafa veðjað á að slíkt ástand geti varað í nokkurn tíma; hækkanirnar muni sennilega halda áfram þangað til kínversk stjórnvöld grípa til aðgerða til að draga úr hinum mikla vexti sem gæti ógnað efnahagslegum stöðugleika í landinu.

Almenningur uppfræddur
Kínverskur almenningur hefur einnig að undanförnu horft hýru auga til þess skjóta ávinnings sem er í boði á hlutabréfamarkaðnum. Sú þróun er ekki óeðlileg ef horft er til þess að kommúnistastjórnin hefur ákveðið að hámarksvextir á innlánsreikningum í kínverskum bönkum skuli ekki vera hærri heldur en rétt yfir 2%. Í ljósi þess að verðbólga í Kína um þessar mundir er í kringum 3% er ávöxtun almennings á því að geyma sparfé sitt inn á slíkum bankareikningum neikvæð. Það er því ekki að undra að almenningur hefur snúið sér að hlutabréfamarkaðnum og litið á hann sem vænlegan kost til þess að ávaxta fé sitt til elliáranna.

En það er ekki víst að allir séu jafn vel að sér um þá áhættu sem slíkum fjárfestingum fylgir. Stjórnvöld í Kína ákvaðu því að bregðast við og senda frá sér yfirlýsingu á föstudaginn þar sem kauphallaraðilar eru hvattir til þess að upplýsa almenna fjárfesta í ríkara mæli um þá hættu sem getur fylgt því að fjárfesta á verðbréfamarkaði.

Hörð eða mjúk lending?
Þrátt fyrir að margir fjárfestar hafi veðjað á að áframhald verði á hækkunum á kínverskum hlutabréfum á þessu ári, telja sérfræðingar hins vegar að það sé fremur spurning um hvenær en ekki hvort þessar hækkanir taki enda og þá hversu miklar lækkanir muni fylgja í kjölfarið. Í frétt Dow Jones fréttaveitunnar segist Mark Williams, hagfræðingur hjá rannsóknarfyrirtækinu Capital Economics, vera tiltölulega bjartýnn á að afleiðingarnar verði ekki mjög víðtækar. Bendir Williams á þá staðreynd að kínverski hlutabréfamarkaðurinn sé fremur lítill ef horft er á hann í hlutfalli af heildarstærð hagkerfisins, einkum ef hlutabréfamarkaðurinn í Hong Kong er ekki tekin með í reikninginn. Flest kínversk fyrirtæki nýta einnig aðallega áunninn hagnað sinn til að fjárfesta fyrir á markaði, í stað þess að sækja sér fjármagn á verðabréfamörkuðum. Af þeim sökum myndu verulega lækkanir á hlutabréfum ekki leiða til þess að fjárfesting í atvinnulífinu myndi dragast það mikið saman.

Það er aftur á móti erfiðara að spá fyrir um hvaða áhrif hrina hlutabréfalækkana í Kína myndi hafa fyrir hlutabréfamarkaði á heimsvísu - en það er þó líklegt að þau yrðu ekki mikil, að mati sérfræðinga. Bein erlend fjárfesting á kínverska markaðnum er fremur lítil, en á meðan ætti mikil eftirspurn kínverskra fyrirtækja eftir fjármagni og vörum að viðhaldast.

Viðbrögð stjórnvalda í Kína eru aftur á móti talin skipta miklu máli um framhaldið. Andy Xie, sérfræðingur um kínverskra markaðinn, segir í grein sem hann skrifaði nýverið í South China Morning Post að ef ráðamönnum í Peking tekst að halda aftur af hinni gríðarlegu aukningu sem hefur orðið í einkaneyslu þar í landi sé líklegt að í kjölfarið myndu fylgja tvö ár þar sem hagvöxtur í Kína minnkaði niður í sjö til átta prósent. En standi yfirvöld hins vegar aðgerðalaus hjá og láti núverandi ástand halda áfram í ár eða svo, mun hlutabréfabólan að lokum springa, meðal annars sökum yfirvofandi samdráttar í bandaríska hagkerfinu. Og allar vonir um svokallaða mjúka lendingu á kínverska hlutabréfamarkaðnum yrðu að engu