*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 2. mars 2020 11:58

Sjávarafurðaverð hækkaði um 8%

Verð íslenskra sjávararfurða hækkaði um 8%, mælt í erlendri mynt, milli áranna 2018 og 2019.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Verð íslenskra sjávararfurða hækkaði um 8%, mælt í erlendri mynt, milli áranna 2018 og 2019, að því er kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Er um að ræða mestu hækkun sem orðið hefur á verðinu síðan árið 2015 þegar verðið hækkaði um 11,1%. Hækkunin á síðasta ári kemur í kjölfar 4,6% hækkunar árið 2017 og 0,9% lækkunar árið 2016. Verð sjávarafurða í erlendri mynt er nú í sögulegu hámarki.

Í Hagsjánni segir að verðhækkunin á síðasta ári hafi verið nokkuð jöfn yfir árið. Þannig hafi veriði hækkað um á bilinu 7-9,1% á 12 mánaða grundvelli eftir ársfjórðungum. Mesta hækkunin, 9,1% hafi átt sér stað á fjórða ársfjórðungi en minnsta hækkunin, 7% á fyrsta fjórðungi ársins.

Útflutningsverðmætti jókst um 8,5%

„Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 260,1 ma.kr. á síðasta ári borið saman við 239,8 ma.kr. á sama tímabil í fyrra og nemur aukningin 8,5%. Aukið útflutningsverðmæti skýrist að mestu leyti af hækkun afurðaverðs í erlendri mynt en einnig veikingu krónunnar. Gengisvísitala krónunnar hækkaði um 8,6% milli áranna 2018 0g 2019. Mælt á föstu gengi krónunnar var útflutningsverðmæti sjávarafurða nær óbreytt milli ára en þó mældist lítils háttar samdráttur. Hann nam 0,06%,“ segir í Hagsjánni.

Minna aflaverðmæti vegna loðnubrests

Þá segir að lítil aukning útflutningsverðmætis á föstu gengi, þrátt fyrir hækkun afurðaverðs í erlendri mynt, skýrist fyrst og fremst af loðnubresti. Engar veiðar voru heimilar á síðustu vertíð þó hafi eitthvað verið flutt út af birgðum frá síðustu vertíð árið áður.

„Útflutningsverðmæti loðnu dróst saman um 11,3 ma.kr. á föstu gengi en litið framhjá áhrifum loðnuútflutnings jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um 4,6%. Á gengi hvers tíma jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða, litið framhjá loðnuútflutningi, um tæpa 29,7 ma.kr., eða 13,4%. Litið framhjá þeim útgerðum sem gera út á loðnu má ætla að margar útgerðir hafi því upplifað mikinn tekjuauka milli ára í krónum talið,“ segir í Hagsjánni.