Sjóðir í eigu bankanna birtu uppgjör sín fyrir skömmu en sjóðirnir eru samtals með rúmlega 600 milljarða króna í stýringu. Dótturfélag Arion banka, Stefnir, er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með rúma 400 milljarða króna í stýringu. Íslandssjóðir, í eigu Íslandsbanka, og Landsbréf, sjóður í eigu Landsbankans, eru báðir með um 100 milljarða króna í stýringu hvor.

Hagnaður Íslandssjóða eftir skatta var 146 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2013 og eykst því um 20 milljónir króna á milli ára. Rekstrargjöld félagsins voru 479 milljónir króna og hreinar rekstrartekjur 662 milljónir króna og hækkuðu gjöld og hreinar tekjur því um svipað hlutfall milli ára eða um 17%.

Hagnaður af rekstri Stefnis hf. eftir skatta var 256 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins en félagið hagnaðist um 625 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.