Sádí-arabíski fjárfestingarsjóðurinn Public Investment Fund (PIF) hefur keypt 5,01% hlut í japanska tölvuleikjafyrirtækinu Nintendo. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters. Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu, er stjórnarformaður sjóðsins.

Sjóðurinn hefur aukið umsvif sín í tölvuleikjageiranum að undanförnu. Þannig keypti sjóðurinn nýverið í japönsku tölvuleikjafyrirtækjunum Nexon, Capcom og Koei Tecmo.

Sjóðurinn, sem er með meira en 600 milljarða dala í stýringu, keypti einnig hlut í tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard sem Microsoft hefur ákveðið að kaupa. PIF hefur jafnframt gefið út sinn eigin tölvuleik og tölvuleikjafyrirtæki, Savvy Gaming.

Sjóðurinn keypti 80% hlut í enska knattspyrnufélaginu Newcastle fyrr á árinu á 300 milljónir punda, eða um 370 milljónir dala.

Gengi bréfa Nintento hefur hækkað um 9% á árinu. Nintendo var stofnað árið 1889, en félagið skapaði meðal annars Mario, Donkey Kong og Pokémon.