*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Erlent 13. október 2019 16:04

Skakkur á skrifstofunni

Stofnandi og fyrrum forstjóri WeWork virðist af lýsingum að dæma vera ansi skrautlegur persónuleiki.

Ástgeir Ólafsson
Adam Neumann, stofnandi og fyrrum forstjóri WeWork.
Aðsend mynd

Líkt og fjallað var um í gær hefur WeWork átt í töluverðum vandræðum eftir að skráningarlýsing fyrirtækins birtist um miðjan ágústmánuð. Fyrirtækið sem stofnað var árið 2010 hefur vaxið á ógnarhraða undanfarin ár en óhætt er að segja að rekstur fyrirtækisins hafi ekki beint staðið undir vextinum. Tap fyrirtækisins á síðasta ári var meira en tekjurnar, stjórnendur hafa verið sakaðir um skapandi bókhald auk þess sem sem viðskiptalíkan þess virðist nánast vera byggt á sandi. 

Það var þó ekki bara sjálfur rekstur fyrirtækisins sem vakti neikvæða athygli fjárfesta, greinenda og blaðamanna. Kafli skráningarlýsingarinnar þar sem farið var yfir áhættuþætti fyrir fjárfesta var næstum 30 blaðsíður að lengd og þar kom nafn Adams Neumann, stofnanda og forstjóra WeWork vægast sagt oft fyrir, þá sérstaklega vegna óheppilegra hagsmunatengsla. Sem dæmi átti Neumann hlut í fjórum byggingum sem WeWork leigði. Hann hafði fengið lán frá fyrirtækinu undir markaðsvöxtum til að fjármagna háan lífsstíl sinn og hafði lánalínu frá fyrirtækinu upp á hálfan milljarð dollara tryggða með bréfum sínum í fyrirtækinu.

En það sem þótti alvarlegast var að hann hafði sjálfur keypt vörumerki „We“ og greiddi fyrirtækið honum 5,9 milljónir dollara fyrir afnot af því. Þessu til viðbótar hafði hann notað fjármuni fyrirtækisins til þess að fjárfesta í gæluverkefnum á borð við 32 milljóna dollara fjárfestingu í brimbrettafyrirtæki og 14 milljóna fjárfestingu í fyrirtæki sem framleiðir öldulaugar fyrir brimbretti. Samtals voru atriði sem vörðuðu tengda aðila alls 100 talsins.

Eftir neikvæðan fréttaflutning og almennt neikvætt viðhorft til WeWork dagana eftir birtingu skráningarlýsingarinnar var ljóst að eitthvað þyrfti undan að láta. Í byrjun september var orðið nokkuð ljóst að skráningin var ekki að ná þeim áhuga fjárfesta sem vonast var eftir. Þann 5. september var greint frá því að fyrirtækið hefði til skoðunar að bréf fyrirtækisins yrði seld á um 50% lægra verði en upphaflega var lagt upp með sem þýddi verðmat upp á 20–30 milljarða dollara. Þá höfðu ráðgjafar við skráninguna orðið sífellt áhyggjufyllri um að ef útboðsgengið yrði of hátt myndi það sama gerast og í tilfelli Uber en hlutabréfaverð leigubílafyrirtækisins hefur lækkað um þriðjung frá skráningu í maí.

Verðmatið hríðlækkar

Þremur dögum seinna var verðmatið komið undir 20 milljarða og degi seinna ákváðu forsvarsmenn SoftBank að þeir hefðu séð nóg og þrýstu á Neumann að fresta skráningu fyrirtækisins en SoftBank hafði fjárfest yfir 10 milljarða dollara í WeWork fyrir 29% hlut. Föstudaginn 13. september var greint frá því að verðmat fyrirtækisins yrði á bilinu 10-12 milljarðar dollara sem var undir þeim 12,8 milljörðum sem fjárfestar höfðu lagt því til. Neumann hélt hins vegar ótrauður áfram en eftir að grein birtist í Wall Street Journal um óhóflega kannabis- og áfengisneyslu hans höfðu eigendur fyrirtækisins fengið nóg sem endaði með því að 24. september lét Neumann af störfum sem forstjóri.

Þann 30. september greindu svo Artie Minson og Sebastian Gunningham, núverandi stjórnendur WeWork, frá því að fallið hefði verið frá áformum um skráningu. Fyrirtækið hefur hafið viðræður um aukið lánsfjármagn sem á að koma í stað hlutafjáraukningarinnar og hefur SoftBank verið nefndur sem sá aðili sem muni veita það fjármagn. Þá er talið líklegt að hægja muni á vexti WeWork og farið verði fram á uppsagnir til að skerpa betur á grunnstarfsemi fyrirtækisins.

Skakkur á skrifstofunni

Óhætt er að segja að Adam Neumann sé athyglisverður persónuleiki. Því hefur verið líst að hann gangi berfættur um höfuðstöðvar WeWork og á síðasta ári bannaði hann starfsmönnum sínum að kaupa á kostnað fyrirtækisins máltíðir sem innihéldu kjöt. Þá leiðist honum ekki að lyfta sér upp og er Don Julio 1942 tekíla í miklu uppáhaldi hjá honum en flaskan af þeim drykk kostar um 149 dollara. Þá hefur kannabisneysla hans einnig vakið athygli en meðal annars hefur sést til hans kveikja sér í inni á skrifstofum fyrirtækisins.

Þá hefur hann lifað hátt á síðustu árum en hann hefur eytt um 45 milljónum dollara í fasteignir á New York-svæðinu á síðustu árum auk þess sem hann festi kaup á 60 milljóna dollara Gulfstream G650ER einkaþotu á kostnað WeWork sem hann notaði til að ferðast á milli staða en þotan hefur verið sett á sölu. Áður en hann lét af störfum hafði hann einnig nær fulla stjórn yfir fyrirtækinu en hlutir hans í fyrirtækinu báru 20 atkvæði á hlut auk þess sem ákvæði voru til staðar að við dauða hans hefði eiginkona hans vald til að tilnefna eftirmann hans óháð mati stjórnar. Það ákvæði er nú ekki lengur til staðar auk þess sem atkvæði á hlut hafa verið lækkuð niður í þrjú sem gerði það að verkum að hann hefur misst meirihluta sinn yfir fyrirtækinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: WeWork