Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað kaup Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og Háa Kletts, félags Árna Péturs Jónssonar, á Gleðipinnum. Að mati eftirlitsins var ekki tilefni til þess að íhlutast vegna samrunans „enda leiddi hann ekki til myndunar á markaðsráðandi stöðu eða annarrar umtalsverðrar röskunar á samkeppni“.

Í október síðastliðnum var greint frá ‏því að KS og Hái Klettur hefðu náð samkomulagi um kaup á afþreyingar- og veitingafyrirtækinu Gleðipinnum.

Um er að ræða kaup á á Hamborgarafabrikkunni, Aktu Taktu, American Style og Blackbox ásamt Rush Trampólíngarði, Keiluhöllinni og Shake & Pizza.

Fyrri eigendur Gleðipinna munu þó áfram koma að eignarhaldi og rekstri á Keiluhöllinni og Rush. Seljendur halda einnig áfram eignarhaldi sínu á Saffran, Pítunni og hlutdeild í Olifa - Madre Pizza og Icelandic Food Company.

Úr ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.

Líkt og þekkt er ógilti Samkeppniseftirlitið nýlega kaup ‏Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars. Eftirlitið bar fyrir sig að með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðendum á majónesi og köldum sósum á Íslandi.