Samkeppniseftirlitið (SKE) telur að þær tillögur sem Ardian lagði fram í sáttaviðræðum vegna kaupa franska sjóðastýringafyrirtækisins á Mílu séu ekki fullnægjandi. Á þessu stigi sé því telur eftirlitið enn að viðskiptin raski samkeppni og að þau verði ekki samþykkt að óbreyttu.

Eftir fundarhöld með eftirlitinu síðustu daga hefur Ardian óskað eftir að frestur SKE til að rannsaka kaupin á Mílu af Símanum verði framlengdur. SKE féllst á beiðni Ardian og hefur frestur til rannsóknar á samrunanum verið framlengdur um 20 virka daga eða til 15. september næstkomandi en áður stóð til að rannsókninni myndi ljúka í síðasta lagi 18. ágúst.

Í bréfi sem SKE birtir á heimasíðu sinni kemur fram að eftirlitið hafi fundað með Ardian á þriðjudaginn eftir að eftirlitið birti umsagnir Fjarskiptastofu og fjarskiptafyrirtækja um kaupin á Mílu. Flestir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við 17 ára heildsölusamning á milli Mílu og Símans sem fyrirhugað er að taki gildi eftir að viðskiptunum lýkur og töldu að sáttatillögur Ardian gangi ekki nógu langt.

„Á fundinum kom jafnframt fram að Samkeppniseftirlitið hefði fullan hug á áframhaldandi sáttarviðræðum með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á þeim samkeppnisvandamálum sem eftirlitið hefði komið auga á. Jafnframt var ítrekað að rof á eignatengslum Símans og Mílu væru jákvæð, en samhliða að það væri verkefni eftirlitsins að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.“

Eftirlitið segir þó að á þessu stigi væri það frummat Samkeppniseftirlitsins að niðurstaðan í andmælaskjalinu, um að viðskiptin raski samkeppni og verði ekki samþykktur að óbreyttu, stæði. SKE segir að m.a. sökum heildsölusamningsins myndu kaup Ardian á Mílu raska samkeppni og þörf væri á íhlutun til að vinna gegn þeim.

Samkeppniseftirlitið telur á þessu stigi rannsóknar að framboðin skilyrði séu ekki fullnægjandi. Var þá á fundinum rætt um önnur möguleg skilyrði. Eftirlitið og Ardian funduðu aftur í morgun og var niðurstaða þess fundar að ástæða væri til að halda þeim viðræðum áfram.

„Samkvæmt öllu framansögðu eru að mati Samkeppniseftirlitsins forsendur til að kanna nánar í sáttaviðræðum við Ardian hvort unnt sé að leysa þetta mál með þeim hætti að annars vegar hagsmunir samfélagsins af samkeppni á afar mikilvægum markaði og hins vegar viðskiptalegir hagsmunir tengdir sölunni á Mílu séu tryggðir með fullnægjandi hætti,“ segir í bréfi eftirlitsins.

Sjá einnig: Semja um 5 milljarða lækkun á kaupverði Mílu

Síminn tilkynnti í byrjun júlí að SKE hefði látið það í ljós að viðskiptin yrðu ekki samþykkt á grundvelli kaupsamningsins sem var samþykktur í október 2021. Í kjölfarið lagði Ardian fram tillögur um breytingar á kaupsamningnum, m.a. að stytta heildsölusamninginn úr 20 árum í 17 ár. Síminn og Ardian komust í kjölfarið að samkomulagi um nýjan kaupsamning á grundvelli tillaganna. Við breytingarnar lækkaði kaupverðið um fimm milljarða króna, úr 78 milljörðum í 73 milljarða.

Leiðrétt: Í upprunalegu fréttinni kom fram að fresturinn hafi verið framlengdur til 8. september. Hið rétta er að fresturinn er til 15. september en dagsetningin misritaðist Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.