Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hyggst skoða réttarstöðu sína vandlega í kjölfar álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þess efnis að íslenskum stjórnvöldum hafi verið óheimilt að banna veitingu gengistryggðra lána í krónur. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að stóru viðskiptabankarnir hafa ekki tekið ákvörðun um málið.

Fram kom í Fréttablaðinu um síðustu helgi að álit ESA, sem gefið var út á miðvikudag, hafi vakið upp spurningar um bótaábyrgð ríkisins gagnvart innlendum fjármálastofnunum. Tómas Hrafn Sveinssson héraðsdómslögmaður sagði í samtali við blaðið að svo gæti farið að bankar sem orðið hafi fyrir tapi vegna endurreikninga gengistryggðra lána í krónur skoði rétt sinn.

Þá segir í blaðinu að fjármálastofnanir hafi tapað háum fjárhæðum vegna gengislánadóma Hæstaréttar. Þeir hafi m.a. kostað Lýsingu 20,4 milljarða króna.