Ef krafa fimm lífeyrissjóða um að Héraðsdómur Reykjavíkur láti slitastjórn Glitnis skila meintum ofgreiddum þóknunum í þrotabúið verður tekin til efnislegrar meðferðar er óhjákvæmilegt að dómurinn afli sér allra upplýsinga um þóknanir annarra slitastjórna líka.

Þetta er mat slitastjórnar Glitnis sem sett er fram í svarbréfi hennar vegna kröfu lífeyrissjóðanna. Fréttablaðið greinir frá.

Lífeyrissjóðirnir fimm; Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Festa lífeyrissjóður, vilja meina að Steinunn Guðbjartsdóttir, Páll Eiríksson og fyrirtæki þeirra hafi oftekið sér um 400 milljónir króna í þóknanir fyrir störf við þrotabúið. Alls höfðu þau fengið 842 milljónir króna greiddar um mitt síðasta ár.

Engir kröfuhafar Kaupþings og gamla Landsbankans hafa farið fram á sundurliðaðan kostnað þeirra. Slitastjórnir þeirra beggja hafa ekki viljað opinbera slíka sundurliðun.