Útgáfa bandarískra ríkisskuldabréfa hefur tæplega tvöfaldast á þeim fjórum árum sem liðin eru frá upphafi heimsfaraldursins og nam 23 billjónum (23 þúsund milljörðum) Bandaríkjadala á síðasta ári sem er meira en nokkru sinni fyrr.

Þrátt fyrir metútgáfuna er ekki útlit fyrir að neitt lát verði þar á á næstunni að sögn Wall Street Journal, þar sem flestir geri ráð fyrir áframhaldandi útgjaldavexti ríkisins sama hver úrslit komandi forsetakosninga í haust verði.

3.164.000.000.000.000

Til að setja upphæðina í samhengi samsvarar skuldabréfaútgáfa Sáms frænda í fyrra um það bil 3,2 billjörðum íslenskra króna, en billjarður (sama tala kallast quadrillion á ensku) eru milljón milljarðar. Það gerir tæplega 740-falda landsframleiðslu Íslands, 84% landsframleiðslu Bandaríkjanna sjálfra, og 22% af samanlagðri landsframleiðslu heimsbyggðarinnar allrar.

Hér verður þó að hafa í huga að um verga útgáfu er að ræða. Bróðurpartur stjarnfræðilegrar upphæðarinnar fór í að greiða upp eldri bréf sem voru á gjalddaga á árinu. Fjárlagahalli bandaríska alríkisins nam 1,7 billjónum dala í fyrra en til að fjármagna hann var hrein skuldabréfaútgáfa ríkisins 2,4 billjónir eða ríflega 10% heildrútgáfunnar.

Markaðurinn með ríkisskuldabréf myndar grunninn fyrir vaxtakjör fjármálakerfisins alls þar sem bréfin eru álitin þau öruggustu á markaðnum auk þess að vera þau seljanlegustu. Margir hafa því áhyggjur af því að hugsanleg röskun á þeim markaði gæti fljótt smitast út í kerfið í heild.

Frá upphafi árs 2020 hefur svokallaður eftirmarkaður með bandarísk ríkisskuldabréf – kaup og sala þegar útgefinna bréfa – vaxið um yfir 60% og er nú um 27 billjónir dala að stærð. Það er um sexfalt stærra en hann var fyrir fjármálakrísuna 2008.

Færðu sig á stutta endann þegar sá lengri mettaðist

„Hátt í 2 billjóna dala hallarekstur í uppsveiflu – það er ansi mikið af bréfum fyrir markaðinn til að taka við,“ er haft eftir fyrrverandi ráðgjafa fjármálaráðuneytisins sem meðal annars tók þátt í að skipuleggja örvunaraðgerðirnar vegna heimsfaraldursins.

Áhrif slíks framboðsvaxtar ofan í mettaðan markað komu meðal annars glögglega í ljós síðasta haust þegar lengri endi vaxtarófsins, með öðrum orðum ávöxtunarkrafa eða vextir á ríkisskuldabréfum til hvað lengsts tíma, tók allhressilegan kipp.

fjárfestum hefur staðið lítið annað til boða á meðan fyrirtæki og heimili halda að sér höndum og forðast lántöku í lengstu lög

Fjármálaráðuneytið vestanhafs brást þá við með því að auka útgáfu styttri bréfa, aðallega svokallaðra víxla (e. Treasury bills eða T-bills), sem eru skuldabréf til undir eins árs.

Eftirspurn eftir þeim hefur verið sterk og það virðist því hafa rétt markaðinn af í bili og forðað frekari hækkun markaðsvaxta. Ein helsta ástæðan, að því er WSJ útskýrir, er einfaldlega sú að fjárfestum hefur staðið lítið annað til boða á meðan fyrirtæki og heimili halda að sér höndum og forðast lántöku í lengstu lög í því hávaxtaumhverfi sem seðlabankar Vesturlanda hafa séð sig knúna til að innleiða, ekki síst vegna viðvarandi hallarekstrar ríkissjóða, sem eykur efnahagsumsvif og þar með verðbólguþrýsting.