Samkvæmt uppgjöri A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir árið 2009 eru heildarskuldbindingar umfram eignir um 51 milljarður króna um síðustu áramót. Það þýðir að tryggingafræðilegur halli á sjóðnum um 13,2%. Á síðasta ári nam raunávöxtun A-deildar LSR 2,5% sem er nokkuð betri árangur en annarra lífeyrissjóða sem hafa verið að skila uppgjöri undanfarið. Sé tekið mið af fimm ára meðaltali hefur raunávöxtunin verið neikvæð um 0,6%.

Þetta eru ekki einu skuldbindingar LSR. Rekin er svokölluð B-deild, sem lokuð var nýjum sjóðsfélögum í árslok 1996. Hins vegar hafa skuldbindingar þar hlaðist upp.

Inn á það kom Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna 21. apríl síðastliðinn. Þar sagði hann:

„Lífeyrissjóðir á vegum opinberra aðila voru með yfir 500 milljarða króna tryggingafræðilegan halla í árslok 2008 sem er ávísun á miklar skattahækkanir í framtíðinni. B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tæmist um árið 2020 og þá þarf ríkissjóður að leggja henni til árlega fjármuni sem nemur yfir 1% af landsframleiðslu í meira en áratug en síðan lækkar það hlutfall smám saman fram á miðja öldina. Vandamálin eru því miklu nær í tíma en oft er talið og stækka ár frá ári á meðan ekki er á þeim tekið," sagði Vilmundur.