Orkuveita Reykjavíkur er afar skuldsett. Langstærstur hluti um 200 milljarða króna skulda er í erlendum gjaldmiðlum. Þar af eru um 14,5 milljarðar á gjalddaga í ár og 29 milljarðar á því næsta. Aðeins um 20% tekna eru hins vegar í dollurum.

Til viðbótar við Orkuveituna eru erlendar skuldir nokkurs fjölda sveitarfélaga til endurgreiðslu í ár og á því næsta. Um einn og hálfur milljarður erlendra skulda er á gjalddaga hjá Hafnarfjarðarbæ á þessu ári, að sögn Gerðar Guðjónsdóttur, fjármálastjóra bæjarfélagsins. Erlendar skuldir á gjalddaga hjá Reykjanesbæ á árinu nema einnig um einum og hálfum milljarði króna. Þá greiðir Reykjavíkurborg um tvo milljarða á þessu ári.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu að veikt gengi krónunnar megi að hluta rekja til þess að íslensk fyrirtæki og sveitarfélög eru að greiða niður erlendar skuldir í töluverðum mæli. Þrátt fyrir undirliggjandi viðskiptaafgang er útstreymi á fjármagnsjöfnuði, sem tengist lánagreiðslum áðurnefndra aðila.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.