„Vextir eru ekki meginvandamálið þegar kemur að fjárfestingu. Frekar er það skuldsetning sumra fyrirtækja,“ að sögn Arnór Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra. Hann segir stjórnendur Seðlabankans hafa rætt við við stjórnendur allra viðskiptabankanna um fjárfestingu hér á landi. Niðurstaðan hafi verið sú að fjárhagsstaða fyrirtækja standi í vegi fyrir fjárfestingum fyrirtækja frekar en vaxtastig.

„Þau eru ekki í stöðu til að skuldsetja sig meira,“ sagði hann á fundi með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra þar sem þeir gerðu grein fyrir vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar bankans. Arnór bætti reyndar við að í sumum tilvikum sé þetta spurning um aðgang fyrirtækja að erlendu lánsfjármagni.

„Ég held að menn geri fullmikð úr því hvað lægri vextir geti þýtt fyrir fjárfestingu. Það sem við þurfum er meiri fjárfesting í útflutningsgeiranum. Við þurfum útflutningsdrifinn hagvöxt til lengri tíma. Fjárfesting í þeim geira er meira háð aðgengi að erlendu lánfé en vaxtastigi hér,“ sagði hann.