Veitingastaðurinn Skyrgerð Café & Bistro í Hveragerði hefur verið auglýstur til sölu ásamt 13 herbergja gistihúsi. Geta áhugasamir keypt reksturinn auk fasteigna sem hýst hafa reksturinn á 275 milljónir króna.

Í fasteignaauglýsingunni segir að Skyrgerðin hafi verið byggð árið 1930 af mjólkurbúi Ölfusinga og Ölfushreppi. Annarsvegar sem fyrsta verksmiðjuskyrgerð á Íslandi en í helmingi hússins hafi svo verið þinghús Ölfusinga.  Við húsið hafi svo verið byggt í tímans rás og það stækkað. Arkitektinn Guðjón Samúelsson, sem lengi vel var húsameistari ríkisins og teiknaði á þeim margar af þekktustu byggingum landsins, hannaði húsið.

Sjá einnig: Halda á lofti matarmenningunni

Í auglýsingunni segir jafnframt að húsið njóti hverfisverndar sem eitt af þremur fyrstu húsum Hveragerðisbæjar. Húsið sé Hvergerðingum afar hjartfólgið og hafi verið aðal samkomustaður bæjarins allt frá byggingu þess.