Stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins hefur ákveðið að taka upp reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment). Reglurnar sem eru leiðbeinandi fyrir stofnanafjárfesta um allan heim fela í sér að þátttakendur skuldbinda sig til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja sem fjárfest er í segir í tilkynningu.


Reglurnar voru samdar af leiðandi lífeyrissjóðum og eignavörslufyrirtækjum víða um heim í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og hafa margir af stærstu lífeyrissjóðum vesturlanda nú þegar undirgengist reglurnar.
Nýju fjárfestingareglurnar verða meðal helstu umræðuefna á aðalfundi Sameinaða lífeyrissjóðsins sem hefst klukkan 16:00 í dag, fimmtudag 24. maí, á hótel Nordica. Þar munu Georg Páll Skúlason stjórnarmaður Sameinaða lífeyrissjóðsins og Páll Harðarsson aðstoðarforstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi fjalla um reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestinga og áhrif þeirra á rekstur sjóðanna. Þorbjörn Guðmundsson formaður stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins segir að reglur um ábyrgar fjárfestingar falli almennt vel að hlutverki og eðli lífeyrissjóða enda hafi þeir þýðingarmiklu samfélagslegu hlutverki að gegna og almenningur geri kröfu um að þeir axli samfélagslega ábyrgð.


Á aðalfundinum verður gerð grein fyrir ársreikningi 2006 en síðasta ár var eitt besta rekstrarár í sögu sjóðsins en eignir hans jukust á árinu um 22,9%