Slitastjórn Kaupþings mun á næstu dögum fara ítarlega yfir þær upplýsingar sem fram hafa komið um aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær og meta áhrif tillagnanna á Kaupþing, samkvæmt upplýsingum frá Davíð Stefánssyni, framkvæmdastjóra hjá Kaupþingi. Ríkissjóður mun greiðna beint niður lán þeirra sem fá skuldaniðurfellingu á höfuðstól verðtryggðra lána. Að óbreyttu gætu greiðslur vegna þessa úr ríkissjóði nema 20 milljörðum króna á ári frá 2014 til 2017.

Bankarnir borgi brúsann

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á kynningarfundi í Hörpu í gær bankaskatt verða hækkaðan til fjármagna skuldaniðurfærsluna og verði áhrifin því engin á ríkissjóð. Gert er ráð fyrir því að heildarskatttekjur ríkissjóðs af fjármálafyrirtækjum verði 37,5 milljarðar króna á næsta ári. Hann verður að mestu borinn upp af skatti á fjármálafyrirtækjum í slitameðferð , þ.e. þrotabúum föllnum bankanna. Bjarni sagði jafnframt kominn tími til að fjármálafyrirtækin taki þátti í kostnaðinum vegna falls bankanna .

Bæði slitastjórnir Kaupþings og Glitnis hafa mótmælt bankaskattinum eins og hann kemur fyrir í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár. Slitastjórn Glitnis hefur sagt að til greina komi að slitastjórnin leiti réttar síns fyrir stjórnvöldum og dómstólum verði skattur lagður á þrotabú bankanna.

Davíð segir í tölvuskeyti við fyrirspurn VB.is um viðbrögð við orðum Bjarna og stefnu ríkisstjórnarinnar slitastjórn Kaupþings ekki hafa í hyggju að tjá sig frekar um tillögur ríkisstjórnarinnar að svo stöddu.