Smáforritið Snapchat er metið á 10 milljarða dala, rúma 1.100 milljarða íslenskra króna, miðað við síðustu fjármögnun fyrirtækisins. Það er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Kleiner Perkins Caufield & Byers sem sagður er hafa fjárfest í Snapchat fyrir 20 milljónir dala. Fjármögnunin komi í kjölfar þess að rússneska fyrirtækið DST Global keypti hlut í Snapchat fyrir sjö milljónir dala fyrr á árinum, að því er fram kemur í netútgáfu bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal .

Stutt er síðan talað var um að Facebook hafi gert tilboð í Snapchat upp á þrjá milljarða dala, jafnvirði 350 milljarða íslenskra króna. Þá mun netverslunin Alibaba hafa skoðað kaup á hlut í Snapchat.

Fyrirtækið hefur aldrei skilað hagnaði.

Helstu notendur Snapchat eru á aldrinum 18 til 25 ára. Notendur sendu frá sér rúmlega einn milljarð skilaboða í maí síðastliðnum og deildu rúmlega 700 milljónum myndskilaboða sín á milli. Það er tvöföldun frá í október í fyrra.