Í nýrri áætlun Rarik er gert ráð fyrir að Hólmsárlón verði gert að miðlunarlóni, þrátt fyrir að í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma frá árinu 2003 sé gert ráð fyrir Hólmsárvirkjun án miðlunarlóns.

Frá þessu er greint í frétt RÚV.

Þar segir að orkufyrirtæki fyrirhugi að sækja um rannsóknarleyfi fyrir tveim nýjum vatnsaflsvirkjunum á hálendinu í vikunni sem nú er að hefjast.

„Í áætlun orkufyrirtækjanna er gert ráð fyrir að Hólmsárvirkjun verði rúmlega sjötíu og tvö megavött og Skaftárvirkjun verði rúmlega hundrað tuttugu og fimm megavött. til samanburðar er Kárahnjúkavirkjun sexhundruð og níutíu megavött,“ segir í frétt RÚV. Þar er jafnframt haft eftir framkvæmdastjóra Rarik að Landsvirkjun og Rarik hyggist sækja um rannsóknarleyfi hjá iðnaðarráðuneytinu fyrir virkjanirnar í vikunni sem hefst á morgun. Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar segir fyrirtækið hins vegar ekki hafa uppi áform um að sækja um rannsóknarleyfi fyrir virkjanirnar í vikunni.

Stíflustæði Hólmsárlóns er innan tveggja svæða sem eru á náttúruminjaskrá, annars vegar svæðis sem kennt er við Emstrur og Fjallabak og hins vegar svæðis sem kennt er við Eldgjá.