S&P Global Ratings staðfesti í gær lánshæfismat viðskiptabankanna þriggja, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans en breytti horfum úr stöðugum í neikvæðar.

Í tilkynningu S&P segir m.a. að breyttar horfur taki tillit til áskorana í efnahagsumhverfi íslenskra banka og er bent á að búast megi við efnahagssamdrætti árið 2019, lækkandi vöxtum, áframhaldandi hárri skattbyrði og harðri samkeppni frá lífeyrissjóðum. S&P telur líklegt að ofangreindir þættir muni hafa neikvæð áhrif á arðsemi bankans.

„Ástæður S&P fyrir breytingu á horfum má meðal annars rekja til krefjandi rekstrarumhverfis fyrir íslenskar bankastofnanir sem einkennist af kólnandi hagkerfi, lækkandi vaxtaumhverfi, hárrar skattlagningar og ójafnrar samkeppnisstöðu við íslenska lífeyrissjóði en allt þetta hafi leitt til lækkandi arðsemi hjá íslenskum bönkum. S&P tekur fram að horfur á lánshæfismatseinkunn Íslandsbanka geti færst aftur í stöðugar með batnandi rekstrarumhverfi og hækkandi arðsemi en nefnir jafnframt að einkunn bankans geti lækkað ef rekstrarumhverfi bankans versni frekar á næstu 24 mánuðum," segir í tilkynningu.

Íslandsbanki segir í tilkynningu að stjórnvöld eigi að skoða lagaumhverfi bankanna. „Í ljósi þessa, þá vill Íslandsbanki ítreka að það sé ábyrgðarhlutur hins opinbera að gæta þess að skattar og gjöld á íslenska viðskiptabanka séu ekki of íþyngjandi og veiki ekki samkeppnisstöðu þeirra en skattar hérlendis eru ennþá margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Slíkt er bagalegt í umhverfi þar sem lífeyrissjóðir og fjártæknifyrirtæki hafa bæst í hóp keppinauta án þess að greiða samsvarandi gjöld til ríkisins og viðskiptabankar greiða. Samkeppni er af hinu góða en þá er nauðsynlegt að allir keppinautar sitji við sama borð."

Helstu athugasemdir S&P við Arion banka eru eftirfarandi:

- Matið gerir ráð fyrir áframhaldandi sterkri markaðsstöðu Arion banka á Íslandi, öflugum stafrænum lausnum og sterkri eiginfjárstöðu sem vegur upp samþjöppunaráhættu vegna útlána í litlu hagkerfi. Arion banki stendur framar mörgum evrópskum bönkum er snýr að undirbúningi fyrir samkeppni frá nýjum fjártæknifyrirtækjum.

- Erfitt er fyrir íslenska banka að auka hagnað og umfang viðskipta frá því sem nú er þar sem samkeppni er afar hörð og dregið hefur úr hagvexti.  Þátttaka lífeyrissjóða á lánamarkaði skekkir jafnframt samkeppnisumhverfi íslenskra banka, bæði hvað varðar lánskjör og lánavöxt. Þar af leiðandi eru horfur metnar neikvæðar.

- Heilt yfir er efnahagsleg áhætta íslenskra banka metin stöðug. Gert er ráð fyrir því að hagkerfið dragist saman árið 2019 en vaxi á nýjan leik 2020.