Fiskur
Fiskur
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Útflutningsverðmæti sjávarafurða mun hækka um 16 milljarða króna á þessu ári frá því síðasta og um fjóra milljarða króna til viðbótar á árinu 2012 ef marka má greiningu sjávarútvegsteymis Íslandsbanka. Aukningin nemur því um 9% og mun hafa jákvæð áhrif á þjóðarbúið. Aukningin er tilkomin vegna aukinna aflaheimilda, og þá aðallega í þorski, alþjóðlegum verðhækkunum á fiski og stöðugri krónu.

Eftirspurn eftir fiskafurðum hefur aukist talsvert á alþjóðamörkuðum og er talið að hún eigi eftir að halda áfram að vaxa á næstu árum, m.a. vegna fólksfjölgunar, auknum tekjum í þróunarríkjum og aukinni áherslu á heilbrigðara líferni. Samkvæmt vísitölu sjávarafurða sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn  reiknar mun alþjóðlegt fiskverð hækka töluvert á þessu ári og hafi ekki verið hærra frá árinu 1988. Að auki telja greiningaraðilar að íslenska krónan haldist tiltölulega stöðug á næstunni.  Þá jók sjávarútvegsráðherra heildarafla þorsks um 10% fyrir árið 2011/2012 en þorskurinn er rúmlega 1/3 af heildarverðmæti sjávarafurða.

Sjávarútvegurinn lagði til tæp 40% alls vöruútflutnings á síðasta ári. Þá var útflutningsverðmæti sjávarafurða um 220 milljarðar króna. Sjávarútvegsteymi Íslandsbanka spáir því um 20 milljarða króna aukningu á þessu ári og því næsta.