Greining Íslandsbanka hefur gefið út spá um þróun stýrivaxta. Í spánni kemur fram að peningastefnunefnd Seðlabankans muni að líkindum lækka stýrivexti bankans um 0,25% þann 10. desember á næsta vaxtaákvörðunarfundi. Hið sama er svo talið verða niðurstaða vaxtaákvörðunarfundar þann 4. febrúar. Samtals muni stýrivextir því lækka um 0,5% á næstu þremur mánuðum, en sé vaxtalækkun nóvembermánaðar tekin með verði hún því orðin 0,75% á skömmum tíma.

Spá því að stýrivextir verði 6,5% árið 2016

Í spánni er þó gert ráð fyrir því að þessi lækkun gangi öll til baka og rúmlega það í lok árs 2015 og 2016. „Við reiknum með því, líkt og Seðlabankinn, að hagvöxtur verði það mikill á næstu misserum að framleiðsluspenna fari að myndast í hagkerfinu. Þá mun verðbólgan færast aðeins í aukana. Hvorttveggja kallar á hærri stýrivexti. Reiknum við með því að peningastefnunefndin bregðist við þessu undir lok næsta árs og ákveði þá að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í nóvember það ár. Verða stýrivextirnir þá komnir upp í 5,50%. Við spáum síðan 1,0 prósentustiga hækkun á árinu 2016 og að sú hækkun verði tekin í nokkrum skrefum," segir í greiningu Íslandsbanka.