Greiningardeild Arion banka spáir 0,8% verðlagslækkun í janúar frá fyrri mánuði sem að stærstum hluta má rekja til útsöluáhrifa. Þá hefur ákvörðun Hagstofunnar um að taka útvarpsgjaldið út úr vísitölunni áhrif til 0,4% lækkunar á vísitölu neysluverðs. „Horft framhjá aðgerðum Hagstofunnar þá erum við að spá 0,4% verðhjöðnun, sem svipar til þess sem mældist í janúar í fyrra. Það sem vegur á móti öllum þessum lækkunum í janúar eru skatta- og gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera – en stór óvissuþáttur í spánni snýr að gjaldskrárhækkunum sveitarfélaga, þ.e. hversu mikil áhrifin verða vegna boðaðra hækkana.“

Gangi spáin eftir verður tólf mánaða verðbólga 2% í janúar samanborið við 2,5% í desember. Án skattaáhrifa verður verðbólgan hinsvegar 1,8%.

Helstu þættir til lækkunar í spá greiningardeildar:

Sterk útsöluáhrif - Janúar er alla jafna mikill útsölumánuður og eru flestar útsölur komnar vel af stað. Í fyrra voru útsöluáhrifin óvenju sterk (miðað við reynslu fyrri ára) og teljum við að það sama verði uppá teningnum núna. Gert er ráð fyrir að heildarútsöluáhrif í janúar verði í kringum 0,9% til lækkunar verðlags.

Útvarpsgjaldið dettur út - Hagstofan tilkynnti fyrir jól að hún muni taka útvarpsgjaldið út úr vísitölu neysluverðs í janúar þar sem nú er litið á útvarpsgjaldið sem beinn skattur, en áhrif vegna þessa eru 0,4% til lækkunar verðlags.

Það sem lesa má úr skýringu Hagstofunnar.

Ástæðan fyrir þessari breyttu aðferðarfræði er sú að þegar útvarpsgjaldið var tekið upp árið 2009 þá var það kynnt sem breyting á innheimtuformi og voru tekjurnar áfram eyrnamerktar RÚV og runnu óskertar til þeirra. Hinsvegar hefur þessu fyrirkomulagi verið breytt í fjárlögum 2011 – gjaldið hefur verið hækkað en á hinn bóginn var fjárveiting til RÚV skert milli ára og rennur því meira til ríkisins en áður. Því lítur Hagstofan nú á útvarpsgjaldið sem beinan skatt. Í raun má segja að gjaldskrárhækkun ríkisins á afnotagjöldum RÚV sé með beinum hætti að leiða til lægri verðbólgu – eins einkennilegt og það nú hljómar !

Ákveðið mynstur má lesa úr flugfargjöldum - Flugfargjöld - sem án efa er einn af stærstu sveiflukóngum vísitölunnar – hefur lækkað og hækkað til skiptist á síðustu mánuðum. Eins og sést á meðfylgjandi mynd má síðustu tvö árin lesa út úr þessu ákveðið mynstur (að undanskyldum mars og júní). Þar sem hækkun einn mánuðinn er oft á tíðum ávísun á lækkun þann næsta. Við gerum ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram í janúar og að hækkunin í desember gangi tilbaka – áhrifin vegna þessa eru í kringum 0,10% til lækkunar á verðlagi .

Helstu þættir til hækkunar:

Eldsneytisverð hækkar - Eldsneytisverð hækkar verðbólguna um +0,19% . Þessi hækkun má rekja til þróunar á heimsmarkaðsverði en áhrif vegna hækkandi bensíngjalds koma fram í næsta mánuði.

Ríkið hækkar gjöld og skatta - Við áætlum að verðlagsáhrif í janúar vegna skatta- og gjaldahækkana ríkisins séu í kringum 0,12%. Inni í þessu mati eru ekki áhrif vegna hækkandi bensíngjalds en þau áhrif koma fram í febrúarmælingu Hagstofunnar, þegar gengið er á þær birgðir sem fluttar voru inn eftir áramótin (+ 0,13% kemur því fram í febrúar).

Sveitarfélögin hækka einnig gjöld - Þessu til viðbótar þá eru sveitarfélögin að hækka verðskrár sínar. Afar erfitt er að áætla hversu sterk áhrifin verða og er liðurinn stærsti óvissuþátturinn í spá okkar. Þrátt fyrir að verulegar gjaldskrárhækkanir hafa verið boðaðar hjá stærstu sveitarfélögum þá gerum við ráð fyrir að áhrifin verði svipuð og þau hafa verið síðustu árin eða í kringum 0,15%. Ástæðan fyrir því að áhrifin verða ekki sterkari má rekja til þess að Orkuveita Reykjavíkur tók forskot á almennar janúarhækkanir þegar þeir hækkuðu gjaldskrár sínar í október sl. Af þessu leiðir að við gerum ekki ráð fyrir að rafmagn og hiti hækki í janúar.

Heildaráhrif vegna opinberra hækkana eru metin 0,4% til hækkunar á verðlagi, þar af koma 0,27% fram í janúar en 0,13% í febrúar.