Um 50 Boeing 737NG vélar hafa verið kyrrsettar á jörðu niðri eftir sprungur í burðarbita komu í ljós í þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Boeing. AFP fréttaveitan segir frá.

Ástralska flugfélagið Qantas tilkynnti í gær að félagið hefði stöðvað notkun á 737NG vélum sínum tímabundið eftir að slík sprunga kom í ljós í einni vél félagsins. Sprungan fannst í svokölluðum „pickle fork“ sem tengir vænginn við skrokk vélarinnar. Félagið hyggst láta gera við sprunguna en viðgerðin kostar um 30 milljónir íslenskra króna. 32 slíkar vélar eru í flota félagsins og verða þær kannaðar á næstu dögum.

Qantas er annað félagið sem verður fyrir barðinu á sama galla en áður höfðu níu vélar verið kyrrsettar í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu. Um þúsund 737NG vélar eru til víðsvegar um veröldina og því um fimm prósent þeirra kyrrsettar sem stendur.

Loftferðayfirvöld í Bandaríkjunum höfðu gefið út að reglubundin skoðun á 737NG vélunum ætti að fara fram þegar þeim hefði verið flogið 30 þúsund ferðir. Í tilfelli Qantas fannst gallinn í vél sem hafði verið flogið talsvert sjaldnar en það.