Starfsemi Enex ehf. hefur dregist talsvert saman undanfarið ár og nú vinna um fimm starfsmenn hjá félaginu en voru 20 þegar mest var. Að sögn sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Geysis Green, er gert ráð fyrir að starfsemi Enex hverfi meira og minna inn undir rekstur Geysis Green þó nafninu verði haldið áfram.

Enex ehf. er dótturfélag Geysis og er að öllu í eigu Geysis Green. Meðal verkefna sem Enex lauk á síðasta ári var bygging 9,3 MW jarðvarmavirkjunar í El Salvador og er virkjunin nú í fullum rekstri. Þetta er fyrsta jarðvarmavirkjunin sem er að fullu hönnuð og byggð erlendis undir stjórn íslensks fyrirtækis.

Hluti af jarðhitaverkefnum í Kína er í eigu Enex og sömuleiðis verkefni í Þýskalandi. Verkefni sem unnin voru undir nafni þess í Bandaríkjunum fóru í eigu Orkuveitunnar þegar uppskipti urðu á verkefnum félaganna.

,,Enex er að hverfa nánast inn í Geysi enda liggur rekstur þeirra algerlega saman. Stefnan var í sjálfu sér að sameina kraftana í rekstrinum eins og til dæmis í Þýskalandi. Ekki þó endilega að sameina félögin eða nöfnin þar sem Enex á sér ákveðna sögu,” sagði Ásgeir. Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi fari niður í tvo innan skamms.

Enex hafði veltu á sínum tíma þegar unnið var að virkjuninni í El Salvador en er tekjulaust núna. Efnahagur þess hefur minnkað verulega eftir uppskiptin því eignin í Bandaríkjunum var ein sú stærsta.