Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur skilað inn greinargerð um endurskoðun reglna um virðisaukaskatt og ferðaþjónustu.

Helstu niðurstöður starfshópsins voru meðal annars að þrengja undanþágur vegna ýmissar afþreyingarstarfsemi og að ýmis rök mæli með því að akstur leigubifreiða og almennissamgangna verði felldur undir skattskyldu virðisaukaskatts. Hópurinn var skipaður til að gera tillögur að einfaldara og skilvirkara kerfi með heildar endurskoðun á virðisaukaskatt- og vörugjaldakerfisins. Starfshópurinn hefur nú lokið starfi sínu og skilað inn greinargerð .

Eftir tillögur frá stýrihópnun hefur fjármála- og efnahagsráðherra ákveðið að raða ábendingum upp í fimm verkþætti.

Í fyrsta lagi eru breytingar sem snerta ferðaþjónustugreinar. Þar með talið er að ljúka vinnu sem snýr að breytingum sem lögfestar voru í árslok 2014 og taka gildi í byrjun næsta árs, en þær breytingar snúa m.a. að fólksflutningum og aðgangi að baðstöðun.

Í öðru lagi verður lagt mat á það út frá sjónarmiðum skattaeftirlits hvort ástæða sé til að færa sölu á áfengi í neðra þrep virðisaukaskatts og hækka gjaldhlutfall áfengisgjalds á þann veg að útsöluverð verði óbreytt.

Í þriðja lagi að vinna að að endurskoðun laga og reglugerða um kaup á vöru og þjónustu frá útlöndum, m.a. netverslun.

Í fjórða lagi verða endurskoðaðar reglugerðir og auglýsingar sem varða fasteignaleigu og byggingarstarfsemi og skattverð í slíkri starfsemi.

Í fimmta lagi verður unnið að frekari greiningu á virkni virðisaukaskattkerfisins og nánari greining gerð á lykilþáttum kerfisins. Slíkri greiningu er ætlað að vera grundvöllur undir tekjuáætlun ríkissjóðs og einnig mat á breytingum einstakra þátta kerfisins, auk þess að vera stuðningur fyrir skattframkvæmdina almennt, bæði varðandi álagningu, eftirlit og innheimtu.

Athugasemd: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð í fyrirsögn að lagt væri til að leigubifreiðar yrðu virðisaukaskattskyldar. Þessu hefur verið breytt í kjölfar athugasemdar.