Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hélt Arion banki starfmannafund í höfuðstöðvum bankans í morgun þar sem Höskuldur Ólafsson bankastjóri kynnti starfsmönnum afstöðu bankans vegna útboðs Símans, en útboðið hefur verið mikið gagnrýnt á síðustu vikum.

Í tilkynningu frá Arion banka segir að framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við stefnu stjórnar að yfirteknum félögum í óskyldum rekstri skuli reynt að koma í sem breiðast eignarhald og þau skráð í kauphöll. Með því vilji bankinn leggja sitt af mörkum við að byggja upp hlutabréfamarkað hér á landi.

Bankinn segir að réttmæt gagnrýni hafi komið fram á tiltekinn þátt söluferilsins varðandi sölu til viðskiptavina bankans stuttu fyrir útboð og að verklagi verði breytt varðandi sölu á stærri eignarhlutum.

Bankinn segir varðandi sölu til viðskiptavina á lægra verði fyrir útboð þá hafi verðið verið metið sanngjarnt vegna reynslu af fyrri útboðum og söluhamla á hlutunum. Bankinn segist hafa fjármagnað aðeins lítinn hluta þessara viðskipta.

Ekki afsláttur til fjárfesta

Arion banki segir að ekki hafi verið um neinn afslátt að ræða varðandi sölu á 5% hluts til fjárfestahóps á þeim tíma sem verðið hafi verið ákveðið, sérstaklega er horft er til 18 mánaða söluhamla sem eru á hlutunum. Verðmatið hafi verið sambærilegt við verðmat á Vodafone, en hlutabréf í Vodafone hækkuðu um 20% frá því að verðið var ákveðið og þangað til útboðið hófst. Töf hafi verið á tilkynningu um viðskiptin sem bankinn segir að hafi verið óheppileg.

Stjórn Simans fékk til liðs við sig óháð ráðgjafafyrirtæki sem vann verðmat á félaginu og bankinn vann sitt verðmat. Arion hafi aldrei litið svo á að hann væri að selja eð afslætti, enda hefði hann enga hagsmuni af því.